Boðað er til allsherjar- og heilsdagsverkfalls kvenna þann 24. október nk.; konur og kvár eru hvött til að mæta ekki til vinnu, annast ekki börnin, standa ekki „þriðju vaktina“ og eftirláta körlunum að sinna heimilinu, börnunum, eldra fólkinu og öllu hinu sem þær sinna samhliða sinni launuðu vinnu.

Fyrsta kvennaverkfallið (kvennafrí) árið 1975 var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið. Það sást með skýrum hætti m.a. þar sem að leikskólar og grunnskólar lokuðu, kennsla féll niður í framhaldsskólum og Háskóla Íslands, þjónusta var skert eða loka þurfti í verslunum, bönkum og fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum. Fiskvinnsla og flug féll niður og konur lögðu niður störf á skipum sem voru úti við veiðar og svo mætti lengi telja.

ASÍ er á meðal þeirra samtaka sem efna til kvennaverkfalls. Á þeim tæplega 50 árum sem liðin eru frá fyrsta kvennaverkfallinu hefur náðst markverður árangur í jafnréttismálunum þó enn sé langt í land.

• Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf.
• Fólk sem starfar við ræstingar, umönnun og menntun barna og þjónustu við sjúka og aldraða myndar láglaunahópa í samfélaginu.
• Atvinnuþátttaka kynjanna er svipuð — en konur bera langmesta ábyrgð á heimilishaldi og umönnun.

Auk þess kerfisbundna vanmats á störfum kvenna hér á landi eru önnur meginþemu verkfallsins kynbundið og kynferðislegt ofbeldi sem meira en 40% kvenna verða fyrir á lífsleiðinni.

Kvennaverkfallið er þó ekki verkfall eins og vinnulöggjöfin segir til um. Launafólk tekur þátt á eigin forsendum og hvetjum við konur og kvár að fá heimild hjá sínum yfirmanni til að taka þátt og berjast fyrir jafnrétti.

Verkalýðsfélag Snæfellinga hvetur atvinnurekendur til að heimila starfsfólki sínu að taka þátt án þess að skerða laun.

Kvennaverkfall 2023 – almennt hvatningarbref

Women’s Strike 2023 – a letter of encouragement to individuals

Strajk kobiet