Formaður félagsins Vignir Smári Maríasson var fenginn til þess að flytja ræðu á sjómannadaginn  í Ólafsvík.

Áhugasamir geta lesið ræðuna hér fyrir neðan.

“Ágætu félagar, sjómenn, fyrrverandi sjómenn og verðandi sjómenn, en
sérstaklega sjómannskonur innilega til hamingju með daginn. Í dag höldum við
hátíðlegann sjómannadaginn, þann fyrsta dag sem sjómenn fengu sem
lögbundinn frídag, þann eina dag sem þeir gátu gengið að vísum sem frídegi,
fyrir utan 1. Maí og jóladag. Seinna komu svo frí eins og jólafrí í marga daga,
frí á milli vertíða, svo frí á milli túra, jafnvel helgarfrí á dagróðrabátum, ég man
að hafa róið á netum þegar var frí annanhvern sunnudag, en svo kom frjálst
framsal aflaheimilda í kjölfar kvótakerfisinns. Þá breyttist allt.
Vertíðina ´88-´89 (já það var á síðustu öld) var ég á loðnubát sem veiddi einn og
hálfan kvóta, útgerðin átti þrjá báta sem fengu úthlutaðan kvóta, lögðu einum
þeirra og færðu kvótan yfir á hina, samkvæmt túlkun á þeim samningum sem
voru í gildi þá, þá þurfti ekki að taka hafnarfrí eftir löndun, ég fór að heiman
man ég, annan janúar ´89 , ég leit við heima í 6 tíma þann 6 febrúar, ég fékk frí
heima í heilan dag, 14 klukkutíma, þann 3 .mars. Alltaf tók maður því sem
sjálfsögðum hlut að konan væri heima og gætti bús og barns, sæi um allt sem
við kom heimilinu og gerði við bílin ef hann bilaði. Þá sagði maður, þetta er allt
í lagi við höfum það svo gott, við höfum svo góðar tekjur, það er ekkert mál að
vaka eina vorvertíð. Svo verður maður eldri og vonandi aðeins vitrari, þá sér
maður hvað þetta var vitlaust.
En nóg um mig.
Það er okkur í blóð borið að tilheyra einhverju, tilheyra fjölskyldu, vinahóp,
samfélagi, stéttarfélagi. Hluti af því að tilheyra félagi, hvaða nafni sem það
nefnist er að taka þátt í félaginu hvort sem það er samfélag, trúfélag eða
stéttarfélag, að taka þátt í félagsskap eru sjálfsögð mannréttindi. Það getur
engin einn gert allt, það hafa allir einhvern styrkleika og þegar margir koma
saman með sína kunnáttu og þekkingu, verður til öflug heild til að takast á við
verkefni framtíðar.
í desember næstkomandi eru samningar sjómanna lausir, þið starfandi
sjómenn, hvað finnst ykkur að eigi að setja fram sem kröfur? Hvað brennur á
ykkur? Þið eigið ekki bara að láta fyrrverandi sjómenn eins og mig sjá um að
setja fram óskalista, það eruð þið sem starfið við þetta sem eigið að móta
kröfurnar, þið vitið hvað ykkur finnst vanta. Þið eigið örugglega eftir að heyra
það sama og venjulega, sama söng og ég heyrði sem sjómaður, það hefur aldrei
verið til króna með gati þegar samningar hjá sjómönnum eru lausir.
Kjarasamningar eru ekki bara samningar um skiptaprósentur, þeir snúast líka
um kjör ykkar eins og frítökurétt, veikindarétt, fæði og klæði, aðbúnað og
hollustuhætti, þið þurfið að ræða saman, kjósa ykkur trúnaðarmenn sem eru
ykkar tenging við ykkar stéttarfélag, mig vantar tengingu við ykkur, látið ekki
hræða ykkur til undirgefni, það er sjálfsagður réttur allra að taka þátt í
stéttarfélagi, ekki bara að vera skráður í slíkt, ég spyr ykkur hvað getur félagið
gert fyrir ykkur, en ég myndi vilja að þið spyrðuð ykkur sjáfa á móti, hvað getið
þið gert fyrir félagið og þá á sama tíma ykkur og ykkar félaga?
Nú á tímum nenna fáir að lesa langar útskýringar á málefnum líðandi stundar,
eða hlusta á langar og leiðinlegar einræður (eins og þessa) en vilja
upplýsingarnar í sem allra stystu máli, helst í einni setningu. Varið ykkur á
falsfréttum, gjaldið varhug við fullyrðingum, gagnrýnið allt sem þið sjáið eða
heyrið í fjölmiðlum, það er ekki alltaf allt sem sýnist. Ekki vera löt þegar kemur
að því að kynna ykkur smáa letrið í samningum, og spyrjið, hikið ekki við að
leita upplýsinga, og fræðið, hiklaust að fræða þá sem ekki þekkja rétt sinn.
Nú á tímun er erfitt að greina á milli þess hvað er satt og rétt og hvað er slitið
úr samhengi og eða hreinlega uppspuni, maður lifði alltaf í þeirri von að með
aukinni tæknivæðingu yrði auðveldara að finna uplýsingar,finna sannleikann.
En staðreyndin er sú að nú til dags getur hver sem er snúið upp á sannleikann
hvort sem er til að hagnast á því sjálfur eða bara til að tvístra.
Núna eru samfélagsmiðlar og aðrir fréttamiðlar, miskunarlaust notaðir til að
tvístra og drotna, etja einstökum stéttum upp á móti hverri annari, öldruðum
og öryrkjum móti flóttamönnum, öfgasinnar dæla yfir okkur hræðsluáróðri í
garð útlendinga, smábátasjómönnum og sjómönnum hjá stærri útgerðum att
saman og sagt þeir séu að taka kvóta af hvor öðrum, það hefur aldrei verið eins
augljóst og nú að það er mikilvægt að standa sameinuð, því allstaðar er verið
að reyna að sundra okkur. Orðræðan sem notuð er í framsetningu á þeim
málum sem mest eru í umræðunni á hverjum tíma er þaulæfð og þrautreynd,
hún var notuð í aðdraganda brexit, hún var notuð til að gera Trump að forseta,
hún er notuð i umræðunni um þriðja orkupakkann, klausturmálið, það var
reynt að nota hana í vetur meðan samningar voru lausir, það verður reynt að
nota hana í haust vegna ykkar samninga. Þessi orðræða hefur verið notuð
allavega síðan á tímum rómverja, og var fullmótuð á öðrum fjórðungi síðustu
aldar.”
Kæru félagar, sameinuð stöndum við sundruð föllum við. Lifið heil.