Þann 3. júlí síðastliðinn, undirrituðu 17 aðildarfélög Starfsgreinasambandsins, þar með talið Verkalýðsfélag Snæfellinga, kjarasamning til fjögurra ára við Samband íslenskra sveitarfélaga. SGS vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara þann 20. júní og síðan þá höfðu samningsaðilar fundað stíft undir verkstjórn ríkissáttasemjara í þeim tilgangi að ganga frá samningi sem báðir aðilar gætu unað við. Þau fundarhöld báru loksins árangur þann 3.júlí.
Nýr samningur gildir afturvirkt frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028.
Helstu upplýsingar um samninginn.
Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning SGS við Samband íslenskra sveitarfélaga hefst kl. 12:00 í dag og stendur til kl.09:00 mánudaginn 15. júlí.
Til að greiða atkvæði um samninginn þarf viðkomandi að hafa rafræn skilríki eða íslykil. Atkvæðisrétt eiga allir félagsmenn í aðildarfélögum SGS sem vinna eftir viðkomandi samningi. Geti einhver, sem telur sig eiga atkvæðisrétt, ekki kosið getur viðkomandi snúið sér til skrifstofu félagsins og fengið sig færðan á kjörskrá og greitt atkvæði, enda leggi viðkomandi fram launaseðil sem staðfesta afdregin félagsgjöld. Tekið er við kjörskrárkærum samkvæmt framansögðu til kl. 09:00 mánudaginn 15. júlí en þá lýkur atkvæðagreiðslu um samningi.