Alþýðusambandi Íslands hefur ítrekað borist ábendingar vegna vinnu fanga af Kvíabryggju á almennum vinnumarkaði. Þar má nefna vinnu við fjölbýli sem verið er að gera upp fyrir langtíma leigu, uppgerð sveitabýlis fyrir gistiþjónustu og vinnu hjá flutningafyrirtæki.

ASÍ vill taka skýrt fram að ekki eru gerðar athugasemdir við betrunarvinnu sem slíka enda fari hún fram innan fangelsis og í einhverjum tilfellum utan fangelsis eins og fram kemur í 25. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga.

Í svari forstöðumanns fangelsins Kvíabryggju við fyrirspurn ASÍ er staðfest að fangar sinna störfum, m.a. iðnaðarmanna á almennum vinnumarkaði. Jafnframt kemur fram að útseld vinna þeirra er 800 kr. á tímann og að þeir fá greiddar 400 kr. á tímann og ávinna sér engin réttindi önnur. Hér er mikilvægt að árétta að betrunarvinnu við almenn störf á vinnumarkaði er hvorki ætlað vera í samkeppni við annað launafólk eða fela í sér félagsleg undirboð og réttindasviptingu fyrir þá sem störfin vinna.

Lögin og greinargerðin sem vísað er til gera ráð fyrir því að fangi geti unnið utan fangelsis og að hann fái fyrir það skattskyld laun. Engar heimildir eru til þess í lögum eða kjarasamningum að laun fyrir þá vinnu skuli ákveðin með öðrum hætti en önnur laun þ.e. lágmarkskjör skv. kjarasamningum gilda sbr. l. 55/1980. Það sama á við um öll þau réttindi sem launafólk nýtur á grundvelli kjarasamninga og laga eins og t.d. veikindaréttur, lífeyrisréttur og tryggingar við vinnu og á leið til vinnu og í frítíma ef við á.

ASÍ telur það fyrirkomulag sem gilt hefur um störf fanga utan fangelsisins á Kvíabryggju og vakin hefur verið athygli á klárt brot á lögum nr. 15/2016 um fullnustu refsinga og hvetur fangelsið og fangelsismálayfirvöld til þess að koma þessum málum í löglegt og rétt horf. Alþýðusambandið áskilur sér allan rétt til þess að fylgja þessum athugasemdum eftir gagnvart þeim yfirvöldum sem í hlut eiga.