Kæru félagar og gestir til hamingju með alþjóðadag verkalýðsins 1. maí 2016.
Kærar þakkir fyrir að bjóða mér til ykkar á ykkar fallega Snæfellsnes.
Mig langar til að byrja á að segja ykkur aðeins frá sjálfum mér og hvernig það er að vera forystumaður í stéttarsambandi eins og SSÍ.
Ég er fæddur 1961 og uppalinn á Siglufirði. Flutti þaðan með fjölskylduna til Vestmannaeyja á vordögum 1989. Byrjaði mína sjómennsku á skuttogurunum á Siglufirði, lengst af á Sigluvík Si 2 með Budda Jó. Á Frigg Ve 41 með Magna Jó 1989-1991. Á Þórunni Sveins Ve með Sigurjóni Óskarssyni aflakóngi einn vetur, með Helga Ágústssyni á Frigg Ve og Sindra Ve í stuttan tíma og svo á Frá Ve 78, 1992-2010 með Óskari Þórarinssyni á Háeyri og Sindra syni hans. Við hjónin eigum tvö börn, tvö barnabörn og eitt á leiðinni.

Þannig er lísfhlaup mitt í stuttu máli. Árið 2007 tók ég við formennsku í Sjómannafélaginu Jötni af Elíasi Björnssyni sem margir af eldri kynslóðinni þekkja eflaust. 2010 kom ég í land og tók þá alfarið við Jötni ásamt því að reka Alþýðuhúsið í Eyjum sem Jötunn á. Einnig var ég hafnsögumaður í Vestmannaeyjum.
Ég var kjörinn formaður SSÍ í desember 2014 og starfaði áfram í Eyjum fram á vorið 2015.
Við hjónin fluttum frá Eyjum eftir Sjómannadag á síðasta ári. Sumarið var mjög rólegt á skrifstofunni, ekki náðist í nokkurn mann nema eitthvað afleysingalið sem engu gat svarað. Ég hugsaði með mér hvort þetta yrði svona framvegis. En það átti nú eftir að breytast aðeins. Eftir sumarfrí fóru hlutirnir að gerast. Dagurinn er alltof fljótur að líða og oft ekki nógu langur. Verkefnin eru fjölmörg. Allt frá því að svara spurningum sjómanna um réttindi þeirra, greinarskrifa fyrir fjölmiðla, koma fyrir þingnefndir, viðtöl í fjölmiðlum, skrifa umsagnir um þingmál, kjarasamningaviðræður hjá Sáttasemjara, heimsókir til félagsmanna útum land og jú og skrifa ræðu fyrir 1. maí á Snæfellsnesi. Að maður tali nú ekki um að ákveða fiskverð fyrir sjómenn einu sinni í mánuði.
Fiskverð.
Þannig er að fulltrúar sjómanna og útvegsmanna hittast einu sinni í mánuði og ákveða fiskverð á botnfiski til handa meginþorra íslenskra sjómanna. Þar er farið eftir reglum og lögum sem þróast hafa gengum árin. Tölur eru færðar inn í módel sem búið var til á sínum tíma og spáir fyrir um þróun fiskverðs næstu 12 mánuði! Vitrænt finnst ykkur ekki. Þórhallur miðill væri líklega betri. Svo deila menn um hvort hækka eigi fiskverð í beinum viðskiptum eða lækka. Undanfarið höfum við þurft að lækka töluvert vegna hækkandi gengis, lækkandi afurðaverðs og lækkandi verðs á fiskmörkuðunum. Ég hef stundum lýst þessu ferli eins og að sitja á móti bílasala og þrefa um kaupverð á notuðum bíl. Eiga fulltrúar sjómanna að standa í svona leik?
Í mínum huga er þetta óviðunandi ástand að einhverjir 6-8 kallar ákveði launakjör sjómanna með einhverju þrefi um hækkun eða lækkun á hinu og þessu. Markaðurinn sjálfur getur hæglega gert þetta sjálfur. Annaðhvort með því að allur fiskur verði verðlagður með uppboði eða við tökum ákveðið hlutfall af afurðaverði. Til þess að svo megi verða, verða upplýsingar um afurðaverð að liggja fyrir og þá meina ég endanlegt söluverð afurðanna.
Kjarasamningar sjómanna.
Undanfarna mánuði hafa sjómenn og útvegsmenn verið að funda hjá Sáttasemjara og einnig óformlega.
Um miðjan apríl láu fyrir drög að samningi. Í honum eru kaupliðir og kauptrygging hækkuð til samræmis við samninga á almenna markaðnum. Kauptrygging hækkar um 23% við undirtitun og aðrir kaupliðir hækka um 9,2%. Í lok samnings ef af verður, um áramót 2018 verður kauptryggingin komin í 310.000 kr. Prósentukækkanir á kaupliði eru þær sömu og í almennu samningunum. Þessu til viðbótar hækkar olíverðstengingin og má segja að við höldum í horfinu þar. Mælieiningar skipa sem við vinnum eftir með skiptaprósentur í kjarasamningnum verða áfram brl. og útgerðin skilduð til að kaupa þannig mælingu. Ákvæði um skattfrjálsa fæðispeninga er í samningsdrögunum en nú bíðum við eftir svari fjármálaráðherra þar um en við áttum góðan fund með honum s.l. fimmtudag.
Það má segja að við séum í raun að framlengja gildandi samningi með þessum breytingum. Til viðbótar er bókun í samningnum um vinnu við erfiðu málin; mönnunarmálin sem eru í því ferli að Samgöngustofa er að gera víðtæka rannsókn á hvíldartíma sjómanna með sérstaka áherslu á uppsjávarskipin, ísfisktogarana og smábátana. Í framhaldi af þessari rannsókn koma fram tillögur um að mönnun fsikiskipa verði í samræmi við niðurstöðurnar og í samræmi við lög og reglur um hvíldartímann.
Fiskverðsmálin eins og áður er sagt. Nýsmíðaálagið og margt fleira er í þessari bókun sem við eigum að reyna að ná samkomulagi um. Fundir verða haldnir reglulega undir stjórn Ríkissáttasemjara sem heldur utanum vinnuna og setur okkur fyrir. Þrír frá okkur og þrír frá SFS verða í þessum vinnuhópi. Það er klárt frá okkar hendi að stjórn SSÍ og samninganefnd verða upplýstar mánaðarlega og oftar ef þurfa þykir um árangur þessarar vinnu. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu sem mér sýnist að aðilar fari í hana af fullum heilindum. Það er löngu komin þörf á að taka allan samninginn upp og færa hann til nútímans.
Öryggismál sjómanna.
Eins og að ofan er greint frá verða mönnunarmálin í brennidepli hjá okkur næstu mánuði og misseri. Mönnunarmálin eru klárlega öryggismál. Það er ekki boðlegt að sjómenn séu illa hvíldir og vansvefta. Það er ávísun á vandræði og slys. Í rannsókn sem Norska siglingastofnunin gerði 2014 er því slegið föstu að 90% slysa til sjós verði vegna mannlegra mistaka. Mannleg mistök verða í lang flestum tilfellum vegna ónægrar hvíldar. Þessa vitneskju höfum við verið meðvituð um lengi. Ég fullyrði að vegna hárra launa sjómanna miðað við aðrar stéttir og vinnustaða menningarinnar meðal sjómanna sjálfra, hefur það þótt merki um ræfildóm og aulahátt að sofa og hvílast eins og þarf til að geta í raun sinnt starfi sínu með tilhlíðilegum hætti. Mönnun fiskiskipa er klárlega eitt af stóru málunum þegar kemur að kjara- og öryggismálum sjómanna. Auðvitað er hvíldin mjög mismunandi milli einstakra skipaflokka og jafnvel milli skipa innan sama flokks. Farið hefur í vöxt að á nýju skipunum að kokknum er gert að vinna líka á dekkinu. Eins og allir sjómenn vita er góður kokkur þyngdar sinnar virði í gulli. Er eins konar samviska áhafnarinnar og sálfræðingur. Hann léttir lundina með góðum kosti og kann að rífa kjaft á réttum tíma, heldur borðsal og eldhúsi skínandi hreinu eins og við þekkjum frá heimilum okkar. Það er því alvörumál að henda kokkhelvítinu á dekk. Miklu verðmætara fyrir útgerðina að senda hann í kokkaskólann eða á matreiðslunámskeið allskonar. Og svo verði hann í kokkhúsinu, malli ofan í sína menn, sé með tuskuna á lofti milli þess sem hann rífur kjaft í léttum tón við mannskapinn.
En einhvernveginn verðum við að brjótast út úr því umhverfi sem við erum nú í. Útgerðarmenn ganga að okkar mati of langt í fækkun á áhöfnum í nokkrum útgerðarflokkum. Það er gert í nafni hagræðingar og lækkunar launahlutfalls útgerðanna. Það má alls ekki skerða öryggi neins staðar í nafni hagræðingar og það held ég að menn séu að ná utan um og verða að gera það. Það er ekki boðlegt að árið 2016 séum við að taka sénsa með öryggi heillar starfsstéttar á Íslandi.
Það er því mín tillaga að farið verði í gagngera endurskoðun á mönnunarköflum kjarasamnings okkar með tilliti til þess að gera enn betur með hagsmuni allra að leiðarljósi. Að íslenskir sjómenn verði áfram í fremstu röð. Það verða þeir ekki örþreyttir, illa sofnir og gerður vondur kostur.
Ég get ekki endað umfjöllun um öryggismál sjómanna nema minnast á þátt Slysavarnaskóla sjómanna. Hilmar Snorrason og hans fólk hefur lyft grettistaki í slysavörnum til sjós og lands. Ég er í stjórn Slysavarnaskólans og er ákaflega stoltur af því að vinna með því góða fólki sem þar er. Skólinn var 30 ára á síðasta ári og færðu samtök sjómanna, SSÍ, FFSÍ og VM skólanum að gjöf, hitamyndavél sem nýtist honum mjög vel í kennslunni í reykköfununni. Með hitamyndavélinni sést hvað menn eru að gera vitlaust og hvað rétt. Jú og enginn gleymist í eldgámnum!

Kjarasamningur við Landsamband smábátaeigenda, LS.
Við náðum kjarasamningi við Landssamband Smábátaeigenda LS árið 2012 í fyrsta sinn. Nokkuð merkur áfangi að mínu mati. Nú er samningurinn laus en við erum í viðræðum við LS og gengur þokkalega held ég.
Nokkur ágreiningur var um túlkun á ákvæði samningsins um skiptaprósentur og hvort útgerðarmönnum sé heimilt að draga frá olíukostnað áður en til skipta kemur. Risu málaferli útaf þessu og þar höfðu sjómenn fullan sigur í Hæstarétti. Nýbúið er að undirrita samning fyrir beitarana og þið megið vera stolt af vinnu ykkar manns Sigurðar Austfjörð í þeim samningi.

Veikinda- og slysaréttur.
Á síðustu misserum hafa fallið tveir dómar um veikinda- og slysarétt sjómanna sem eru í skiptikerfi. Þessi mál voru í nokkurri óvissu vegna tveggja mismunandi dóma sem fallið höfðu áður. Tveir nýjustu dómar Hæstaréttar taka af allan vafa um þessi mál og eru mjög skorinorðir og ekki hægt að misskilja þá. Eitthvað ætla útgerðarmenn að skirrast við að gera upp veikinda- og slysarétt sjómanna samkvæmt þessum nýju dómum. Ætla að mæta þeim af fullri hörku og gera upp eftir sínu höfði. Tek skýrt fram að ekki eru allar útgerðir undir sömu sökina seldar í þessum efnum.
Ég skora á sjómenn að standa saman gegn þessum aðferðum, hafa samband við sitt félag ef einhver vafi er á réttu uppgjöri. Félögin okkar eru öryggisventillinn og ef menn eru reknir fyrir að ná rétti sínum lýsir það vinnuveitandanum en ekki launþeganum og okkur ber að upplýsa um svoleiðis tilvik eftir öllum leiðum.
Að þessu sögðu minni ég á að bæði sjómenn og útgerðarmenn hafa réttindi og skyldur sem ber að virða á báða bóga. Á því er stundum misbrestur að aðilar átti sig á hvað eru réttindi og hvað eru skyldur.
Samþjöppun í sjávarútvegi.
Ég hef nokkrar áhyggjur af því ástandi sem hefur skapast í íslenskum sjávarútvegi með samþjöppun aflaheimilda, krosseignatengslum stóru fyrirtækjanna í hvort öðru og fyrirtækjum tengdum sjávarútveginum. S.s. eignatengslum útgerðanna í fiskmörkuðunum. Við verðum að spyrna við fótum og gera upp við okkur hvort þessi tengsl séu eðlileg. Það er ekki sjálfgefið að Íslenskir sjómenn segi já og amen við hverju sem er. Á einhverjum tímapunkti gæti þjóðin risið upp og sagt nei við núverandi kerfi og hvar stöndum við þá? Þessi spurning hangir yfir okkur og það kemur að því að sjómenn sem og aðrir verða að taka afstöðu til breyttrar myndar í sjávarútvegi. Spurningarnar eru stórar og eins gott að vanda sig við svörin því mikið er undir.
Að lokum óska ég íslenskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra sem og öllu Íslensku launafólki til hamingju með Verkalýðsdaginn, hátíðis- og baráttudag íslensks launafólks.