Atkvæðagreiðslu er nú lokið um nýjan kjarasamning á milli Starfsgreinasambandsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 20. nóvember síðastliðinn. Starfsgreinasambandið fór með umboð 15 aðildarfélaga sinna og var samningurinn samþykktur í öllum félögunum, en í heildina samþykktu yfir 90% þeirra sem greiddu atkvæði. Félögin sem SGS fór með umboð fyrir eru: Aldan stéttarfélag, AFL starfsgreinafélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Verkalýðsfélag Vestfirðinga.
Kjörsókn var í heildina 33,14%, 2.749 félagar voru á kjörskrá og atkvæði greiddu 911.