Kæru félagar og aðrir landsmenn, til hamingju með daginn.

Yfirskrift dagsins þetta árið er 

VIÐ SKÖPUM VERÐMÆTIN.

Það verða engin verðmæti til án okkar. Ekkert um okkur án okkar er slagorð öryrkja, það slagorð á oft við þegar stjórnvöld vilja breyta lögum og reglum sem varða stéttarfélög og vinnudeilur.
Undanfarin ár hefur það færst í aukana að grafið sé undan stéttarfélögum alls staðar í heiminum. Hér á landi hefur verið almenn stéttarfélagsaðild, ein sú öflugasta í evrópu og höfum við haldið því á lofti. Nú er sótt að stéttarfélögum á Íslandi með ýmsu móti, það byrjaði með stéttarfélagi sem hét Kópur, síðan kom annað hjá Play, núna er komið eitt enn sem heitir Virðing. Öll þessi félög eiga það sameiginlegt að þau „sömdu“ um verulega lakari kjör og réttindi fyrir félagsmenn sína en þau sem samið er um í kjarasamningum félaga innan ASÍ og öll þessi gulu stéttarfélög eru stofnuð með aðkomu eigenda og stjórnenda þeirra fyrirtækja sem vilja lækka laun og skerða kjör verkafólks.
Við erum, sem betur fer, ekki komin á þann stað sem nágrannaþjóð okkar í vestri er komin. Í mars síðastliðnum var Kilmar Abrego Garcia handtekinn á grundvelli laga um útlendinga, skutlað til El Salvador og er þar í hámarks öryggisgæslu. Úr því fangelsi hefur aldrei sloppið lifandi maður. Það eina sem hann hafði unnið sér til saka var að skipta sér af verkalýðsmálum og vera í stéttarfélagi sem er aðili að UNI Global sem Verkalýðsfélag Snæfellinga er aðili að, í gegnum verslunarmanna deild félagsins sem er hluti af LÍV. Þetta eru skýr skilaboð frá yfirvöldum í USA, ef þú ert innflytjandi, ekki skipta þér af því hvernig farið er með verkafólk. Þetta er ekki eina dæmið, þetta er gert í fleiri löndum og er ein birtingarmynd þess hvernig er verið að draga athygli okkar frá þeirri stefnu sem rekin er allt of víða, að stórfyrirtæki og ofurríkir einstaklingar reyna að fyrirtækjavæða lýðræðið.
Lýðræðið er virkast þar sem réttindi launafólks eru virt og launafólk getur nýtt sér rétt sinn til tjáningarfrelsis og félagafrelsis, án ótta við kúgun stjórnvalda. Í ljósi vaxandi aðsóknar að grundvallarréttindum á alþjóðavísu munu verkalýðsfélög halda áfram að krefjast sanngirnis og réttlætis fyrir allt verkafólk, sama hvaðan það kemur.

Vignir Smári Maríasson
Formaður Verkalýðsfélags Snæfellinga