Undanfarið hefur verið skrifað á heimasíðum Eflingar og Einingar Iðju um svokallað stéttarfélag sem ber nafnið Virðing, eftir að maður hefur skoðað heimasíðu þess og þennan svokallaða kjarasamning þeirra og SVEIT (samtök veitingamanna) sést berlega að um “gult” stéttarfélag er að ræða, þessi samningur er búinn til af eigendum SVEIT eins og kemur fram hjá ofangreindum félögum. Með þessum gjörningi eru atvinnurekendur í SVEIT að ráðast að þeim lágmarkskjörum og réttindum sem samið hefur verið um við Samtök atvinnulífsins, það er rúmlega hundrað ára barátta á bak við þessi réttindi og verkafólk er ekki tilbúið að gefa þau eftir með einu „gulu“ pennastriki.
Það er einfaldara að segja hvað sé í lagi við þennan “samning” en að telja upp það sem er rangt, því svarið er einfaldlega: þetta er ekki í lagi.
Grófasta dæmið er að dagvinnutímabil er til kl 20:00 á virkum dögum og á laugardögum frá kl 8:00 til 16:00 í þessum (ó) Virðingar samning. Í kjarasamningi sem Verkalýðsfélag Snæfellinga gerir við Samtök atvinnulífsins er dagvinnutímabil hjá veitingageiranum frá 8:00 til 17:00 og 45% álag á laugardöum.
Verkalýðsfélag Snæfellinga hvetur félagsfólk sem vinnur á veitinga- og gistihúsum að láta félagið vita ef því er boðið að vinna samkvæmt slíkum kjarasamningum eða heyrir um að félögum þeirra sé boðið slíkt. Við skulum standa saman í að stöðva niðurbrot réttinda og launakjara á félagssvæðinu.

Vignir Smári Maríasson