Þann 6.febrúar greiddi Verkalýðsfélag Snæfellinga úr félagsmannasjóði til félagsmanna sem starfa eða hafa starfað hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu frá 1. janúar – 31. desember 2023.
Í kjarasamningi aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2019 var samið um og stofnaður sérstakur félagsmannasjóður. Sveitarfélögin greiða mánaðarlega 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í þennan sjóð. Verkalýðsfélag Snæfellinga á aðild að sjóðnum fyrir sína félagsmenn, en skv. honum ber stéttarfélögunum að standa skil á þessum greiðslum til félagsmanna 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Athugið að ekki hefur verið tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem greidd er út til félagsmanna. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.
Fyrstu árin hélt Starfsgreinasambandið utan um starfsemi sjóðsins og sá um að greiða út til félagsmanna. Í september 2022 var ákveðið að Starfsgreinasambandið hætti að sjá um þetta og að hvert félag tæki yfir sjóðinn fyrir sína félagsmenn. Umfangið var of mikið fyrir SGS og tókst því ekki að leysa verkefnið með viðunandi hætti. Því mun Verkalýðsfélag Snæfellinga framvegis sjá um þessar greiðslur til sinna félagsmanna.