Kæru félagar.
Gleðilega hátíð.
Annað árið í röð er ekki haldið upp á fyrsta maí með hefðbundnu sniði. Við skulum vona að þetta verði í síðasta sinn vegna þessarar veiru. En eins og í fyrra verður dagskrá á RUV að kvöldi 1. maí kl 21:00.
Yfirskrift 1. maí á þessu ári er: „ Það er nóg til“ og það er nóg til handa öllum ef skiptingin væri réttlát. Í samfélagi okkar eru nægar auðlindir fyrir okkur öll þetta er bara spurning um að skipta afrakstri auðlindanna á sanngjarnan og réttlátan hátt.
Nú liggur fyrir Alþingi fjármálaáætlun til næstu 5 ára. Sú áætlun er ekki sniðin að þörfum verkafólks. Hún er samin eftir kröfum þeirra sem eiga, þeirra sem heimta sinn arð og engar refjar. Nú skal láta okkur greiða niður covid skuldir á 5 árum með hagræðingu og niðurskurði og við vitum öll að það þýðir undirmönnun í heilbrigðiskerfinu, sparnað á öllum sviðum nema inn í stjórnsýslunni og einkavinavæðingu sem mun kosta meira en ríkisrekstur þegar upp er staðið. En hverjir eru eigendur skuldabréfsins? Það erum við sjálf þess vegna liggur ekkert á að greiða þessar skuldir. Sama áætlun gerir ráð fyrir að hér verði 5% atvinnuleysi eftir 5 ár. Það hlýtur að vera til betri leið. Á meðan atvinnuleysið er svo hátt verður tryggingargjald ekki lækkað. Hinn þögli meirihluti atvinnurekanda mun styðja þessa stefnu til þess að styggja ekki oligarkana. Það gæti fallið brauðmoli af borðum þeirra.
Sumt af því sem gert hefur verið undanfarið er farið að minna of mikið á aðdraganda fjármálahrunsins. Það er verið að minnka allt eftirlit og draga úr getu þeirra stofnanna sem eiga að taka sjálfstæðar ákvarðanir um hvort rannsókna sé þörf. Það er ekkert gert til að vernda þá sem benda á að keisarinn sé nakinn. Það er gefið skotleyfi á boðbera válegra tíðinda og þeir teknir af lífi eins og sagan segir að faróarnir í Egyptalandi hafi gert til forna. Höfum við ekkert lært á 3500 árum?
Þegar við förum að geta lifað aftur eðlilegu lífi og þjóðfélagið fer af stað, vona ég að það verði með þeim breytingum að það verði fyrir fólk en ekki fjármagn. Í haust eru kosningar til Alþingis. Spyrjið ykkur hvaða flokkur og hvaða frambjóðendur þessa kjördæmis munu setja kjör verkafólks fram yfir hagsmuni eina prósentsins í kosningaloforðum sínum áður en þið krossið við.
Fyrir ári síðan skrifaði ég að vonandi myndum við ná því marki að geta lifað „eðlilegu“ lífi eftir nokkrar vikur eða mánuði og enn er vonin sú að eftir nokkra mánuði verði búið að aflétta takmörkunum svo við getum farið að hópast saman án takmarkana og að gríman verði valkvæð en ekki skylda.
Lokaorðin eru endurunnin frá því í fyrra:
„Á þessum tíma getum við vonandi fundið þá leið sem gagnast þjóðum heims til að geta lifað í sátt á þeim auðlindum sem þessi jörð hefur að bjóða, sú eina jörð sem stendur okkur til boða. Við höfum í raun ekki val um annað“.
Lifið heil.
Vignir S. Maríasson
Formaður Verkalýðsfélags Snæfellinga