Vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu hækkar skiptaverð til sjómanna þann 1. júní næstkomandi.

Að gefnu tilefni er rétt að geta þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu einhliða yfirlýsingu til samtaka sjómanna þann 6. maí síðastliðinn og telja sig með þeirri yfirlýsingu geta sagt upp ákvæði í grein 1.29.1 í kjarasamningi aðila þar sem segir að skiptaverðið sé 0,5 prósentustigum hærra þegar aflinn er seldur skyldum aðila en þegar hann er seldur óskyldum aðilum. Rök SFS eru að ákvæðið hafi verið tímabundið og því sé hægt að segja því upp. Ákvæðið er þannig: “Á meðan unnið er að bókun um heildarendurskoðun kjarasamnings á gildistíma þessa samnings, skal útgerð sem selur afla til eigin vinnslu innanlands, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila, skal skiptaverðmætishlutfall vera að lágmarki vera 70,5%. Aðrar tölur fyrir afla til eigin vinnslu innanlands breytast til samræmis við þetta.” Í bókuninni um heildarendurskoðun kjarasamningsins var stefnt að því að ljúka þeirri vinnu fyrir 1. júlí 2019. Það tókst hins vegar ekki að ljúka heildarendurskoðuninni fyrir þessa viðmiðunardagsetningu og er því þeirri vinnu enn ólokið. Þó kjarasamningurinn hafi átt að gilda til 1. desember 2019 er enn ósamið við sjómenn. Hingað til hefur ekki verið ágreiningur um að síðast gildandi samningur gildi þar til nýr hefur verið gerður. Sjómannasamband Íslands hefur mótmælt þessari einhliða yfirlýsingu SFS og telur hana ekki standast þær reglur sem gilda á vinnumarkaði. Sjómannasamband Íslands hefur því sent málið til lögfræðings sambandsins og fer það væntanlega fyrir Félagsdóm fljótlega.

Þrátt fyrir Þessa yfirlýsingu SFS frá 6. maí síðastliðnum telur Sjómannasamband Íslands að kjarasamningurinn sé í fullu gildi. Að mati Sjómannasambands Íslands hækkar því skiptaverðið þegar afla er landað til vinnslu innanlands í 77,5% af verðmæti aflans þegar hann er seldur skyldum aðila og í 77% af heildarverðmætinu þegar aflinn er seldur óskyldum aðila. Gildir þetta frá og með 1. júní 2020. Sjómenn á skipum þar sem aflinn er seldur skyldum aðila eru beðnir um að fylgjast vel með uppgjörum sínum fyrir júnímánuð og halda þeim til haga þannig að auðvelt verði að sækja mismuninn á útgerðina ef niðurstaða Félagsdóm verður sambandinu í hag.

Skiptaverð á skipum sem frysta bolfiskafla um borð fer í 75,5% af fob verðmætinu og í 70% af cif verðmætinu ef aflinn er seldur með þeim söluskilmálum. Þegar rækja er fryst um borð verður skiptaverðið 72,5% af fob verðmæti aflans og 67% af cif verðmætinu. Ef fiskiskip selur uppsjávarfisk í erlendri höfn er skiptaverðið 70% af heildarverðmætinu og ef siglt er með botnfisk til sölu erlendis er skiptaverðið 66% af heildarverðmætinu.

Að öðru leyti er vísað til töflu á heimasíðu SSÍ um skiptaverð einstakra mánaða.