Félagafrelsi.

Nú er nýsamþykktur kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands Íslenskra Sveitarfélaga. Þar er gerð sú breyting, að fellt er út ákvæði um forgangsrétt til vinnu, til að jafna réttarstöðu aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins gagnvart opinberu stéttarfélögunum.
Með þessum samningi fylgir yfirlýsing, undirrituð af samningsaðilum, sem ítrekar það sem alltaf hefur verið í lögum og samningum, að bannað er að mismuna fólki eftir stéttarfélagsaðild, ef fleiri en eitt stéttarfélag á sama félagssvæði hafa kjarasamning við viðkomandi sveitarfélag þá hefur starfsmaðurinn það félagafrelsi að velja í hvaða félagi hann er. Forsvarsmenn og starfsmenn sveitarfélaga geta EKKI skipað umsækjendum um störf hjá sveitarfélaginu að ganga í ákveðið stéttarfélag.

Skil á félagsgjöldum.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur, bæði meðal atvinnurekanda og verkafólks, að ef starfsmaður kýs að standa utan stéttafélags þá þurfi ekki að greiða af honum til stéttarfélags. Það er alrangt, því 6. grein laga númer 55 frá 1980 tekur af allan vafa um að launagreiðendum ber að halda eftir iðgjaldi starfsmanns í viðkomandi stéttarfélagi og að standa skil á því ásamt mótframlagi í sjóði félagsins. Inni á vinnuréttarvef ASÍ er að finna nánari útskýringar á þessu.

Glataðir miljarðar?

Nú eru samningar sjómanna lausir og hafa verið lagðar fram kröfur samningsaðila. Í beinu sambandi við þetta hefur verið sett fram sú krafa frá samninganefnd sjómanna að stjórnvöld láti fara fram óháða rannsókn á söluvirði afurða í Íslenskum sjávarútvegi til að finna hvert endanlegt verð er á afurðunum og hvað af því er að skila sér til Íslands. Þetta eru gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir bæði fyrir sjómenn og þjóðfélagið í heild sinni.
Í lokin vil ég minna forsvarsmenn fyrirtækja á að skráning raunverulegra eigenda verður að vera komin til skattsins fyrir 1. Mars 2020.

Vignir S. Maríasson
Formaður Verkalýðsfélags Snæfellinga.