Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning 17 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir starfsmenn sveitarfélaga liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með miklum meirihluta.

Starfsgreinasambandið hélt utan um sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu meðal 16 félaga um nýjan samning, en AFL Starfsgreinafélag sá sjálft um sína atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 3. til 10. febrúar. Í heildina var kjörsókn 32,83%. Já sögðu 80,55% en nei sögðu 16,33%. 3,12% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 4.197 manns.

Samningurinn, sem undirritaður var 16. janúar síðastliðinn, er því samþykktur hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífandi stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu (PDF)