Fimmtudaginn 3. september var opnuð þjónusta fyrir pólskumælandi einstaklinga á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjallinu www.1717.is
Þjónustan verður opin á fimmtudögum frá kl. 20-23.

Hópur pólskumælandi sjálfboðaliða hefur gengið til liðs við verkefnið og hlotið alla viðeigandi þjálfun til að sinna svörun.  Markmiðið er að ná til pólskumælandi einstaklinga sem búa hér á landi en einnig er talið mikilvægt að koma þessum skilaboðum til allra er málið gæti varðað. Verkefnið er þarft með tilliti til þess hve stór hópur pólskumælandi einstaklinga býr á Íslandi og með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu er Rauði krossinn í stakk búinn til að sinna þessum stóra hópi fólks sem telur nú yfir 20 þúsund einstaklinga.

Um 1717
1717 hefur frá árinu 2004 tekið á móti hundruði þúsunda erinda, í gegnum síma og netspjall, frá einstaklingum sem þurfa á aðstoð að halda.

Árlega berast um 15 þúsund erindi á borð 1717 og eru þau jafnólík og þau eru mörg. Flest snúa þau að sálrænum og félagslegum vanda á borð við þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugleiðingar, félagslegri einangrun og fjárhagsáhyggjum svo eitthvað sé nefnt.

Við verkefnið starfa um 100 sjálfboðaliðar sem veita sálrænan stuðning, virka hlustun og upplýsingar um úrræði í íslensku samfélagi. Það er ókeypis að hafa samband (t.d. þarf enga inneign til að hringja) og þjónustan er ætíð nafnlaus og í trúnaði. Þjónustan er einnig opin allan sólarhringinn á íslensku en síðastliðna mánuði hefur átt sér stað ofangreind vinna til að útvíkka þjónustuna.

Okkar von með þessu bréfi er að þú hafir Hjálparsímann og netspjallið í huga þegar þú ræðir við pólskumælandi skjólstæðinga/starfsfólk/viðskiptavini/vini og kynnir fyrir þeim þetta úrræði skildu þau þurfa á því að halda. Gott er að vita af og benda fólki á 1717, þar sem mikla reynslu má finna. Hjá okkur er sólarhringsopnun fyrir alla þá sem þurfa á því að halda. Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsímann.

Fyrir frekari upplýsingar á íslensku og pólsku bendum við á www.1717.is en þar má nálgast allar nánari upplýsingar og þar er einnig að finna netspjallið