Kæru félagar, gleðilega hátíð.

Í ár er ekki haldið upp á 1. maí með hefðbundnu sniði frekar en annað í þjóðfélaginu. Það verða engar samkomur með ræðuhöldum, skemmtunum og veitingum, en ég vill benda ykkur á að það verður dagskrá á RUV að kvöldi 1. maí kl. 19:40.

Frá 1. maí í fyrra hefur margt gerst í samskiptum verkafólks og atvinnurekenda, samningar hafa verið endurnýjaðir við nánast alla viðsemjendur og hefur niðurstaða þeirra allra verið að jafna kjör og bæta hag þeirra lægst launuðu. Löngu áður en að skrifað var undir svokallaðan lífskjarasamning þann 3. apríl 2019 var byrjað að hamra á því af ráðamönnum þjóðarinnar að kaupmátturinn hafi vaxið svo og svo mikið undanfarin ár, núna þegar alheimsfaraldur geisar og allt liggur í dvala, ríkisstjórnir um allan heim keppast við að dæla peningum í atvinnulífð til að halda fyrirtækjum á floti er hvergi minnst á kaupamátt launa, hvergi talað um að verkafólk þurfi að lifa af. Ætli það verði eins núna og alltaf áður þegar samdráttur verður, að það verði eignaupptaka hjá þeim sem minnst meiga sín í þjóðfélaginu til að bjarga þeim sem eiga mest?

Yfirskrift 1. maí á þessu ári er „byggjum réttlátt þjóðfélag“, á undanförnum vikum hefur það komið enn betur í ljós að nýfrjálshyggjan er ekki að virka, hvort sem er í heimsfaraldri eða efnahagskreppu sem hún býr til sjáf, eins og var 2008. Nú er tækifærið til að gera þær breytingar sem þarf til að byggja réttlátt þjóðfélag, þjóðfélag þar sem réttlætið er sett ofar augnablikshagsmunum og stundargróða örfárra eiginhagsmunaseggja, þjóðfélag sem metur alla sína samborgara að verðleikum.

Á næstu vikum og mánuðum munum við vonandi ná því marki að geta hafið aftur eðlilegt líf og að þjóðfélagið fari af stað, en þó með þeim breytingum að það verði fyrir fólk en ekki fjármagn. Á þessum tíma getum við vonandi fundið þá leið sem gagnast þjóðum heims til að geta lifað í sátt á þeim auðlindum sem þessi jörð hefur að bjóða, sú eina jörð sem stendur okkur til boða. Við höfum í raun ekki val um annað.

Lifið heil.
Vignir S. Maríasson
Formaður verkalýðsfélags Snæfellinga.