Fréttir

16. nóvember 2016

Kynningarefni vegna samninga sjómanna

Kynningarefni vegna samninga sjómanna , sem undirritaðir voru þann 14.11.2016    

 

23. september 2016

Sjómenn borga útgerðarmönnum rekstrarstyrk – breytinga er þörf!

Þegar ég byrjaði fyrst á sjó hafði ég aldrei áður heyrt á það minnst að starfsmenn fyrirtækja tækju á sig hluta af rekstrarkostnaði við vinnustað sinn og fannst það ansi undarlegt. í skilningsleysi mínu fyrir þessu krafði ég eldri sjómenn svara við því hvers vegna þetta væri. Mér var bent á að olíuverðsviðmið hefði verið sett í lög (lög nr. 24/1986) vegna slæmrar stöðu útgerðar á þeim tíma, og að olíukostnaður hafi verið metinn stærsti orsakavaldur af því. Þess vegna leggi sjómenn til hluta launa sinna í þeim tilgangi að styrkja rekstur útgerða og tryggja eigið atvinnuöryggi. Með þeim hætti er sjómönnum gert að taka á sig sveiflur á olíuverði og koma þannig útgerðarmönnum til hjálpar. Gegn þessum rekstrarstyrk sjómanna til útgerðar þegar illa árar, áttu útgerðarmenn að skila hærri skiptaprósentu til þegar vel árar, og átti olíuverðið að notast sem mælikvarði.  Þetta kerfi undirstrikar að sjómenn og útgerðarmenn eigi að vera samherjar og séu að vinna sameiginlega að sama markmiði.

Olíuverð á heimsmarkaði hefur þróast með tíð og tíma, og þessa þróun er ekki hægt að kalla sveiflu, enda eru sveiflur til skamms tíma en þróun til langs tíma. Olíuverð á heimamarkaði er til dæmis í lágmarki í dag. Það má bersýnilega sjá á fréttaflutningi þegar olíuríki minnka framleiðslu til að hækka verð. Þetta segir okkur að þau viðmið sem er verið að notast við í dag til að ákvarða skiptaprósentu eru bersýnilega úr sér gengin, enda er skiptaprósenta búin að halla á sjómenn nokkuð sleitulaust í fjölda ára þrátt fyrir lækkandi olíuverð. Við þurfum bersýnilega nýja aðferð til að meta hvað er þróun olíuverðs og hvað eru sveiflur. Sveiflurnar eiga að hreyfa skiptaprósentu, ekki þróun. Þróun á að vera grunnur til viðmiðunar.

Útgerðarmenn eru mjög hæfir í að reka fyrirtæki og eru  að skila afburða góðri afkomu þessi árin. Þessum árangri hafa þeir náð með rekstrarstyrk frá sjómönnum sem hafa styrkt útgerðarmenn með því að gefa eftir hluta launa sinna útgerðarmönnum til handa í langan tíma. Þróun olíuverðs og rekstrarstyrkur sjómanna hefur gjörbreytt rekstrarumhverfi útgerðarmanna sem skilar sér í gríðarlegum arði hjá útgerðarmönnum.  Þróunin er einnig sú að ný skip verða eyðslugrennri með nýrri hönnun, og er nýsmíði fiskiskipa einnig rekstrarstyrkur frá sjómönnum til útgerðar. Sjálfsagt vita ekki margir að hluti launa sjómanna er nýttur til að greiða fyrir smíði á nýjum skipum án þess að sjómenn eignist hlut í nýsmíðuðum skipum útgerðarmanna. Við sjómenn treystum útgerðarmönnum fullkomnlega til að halda áfram að skila góðri afkomu án þess að vera áskrifendur að launum okkar sjómanna. Í ljósi góðrar

21. september 2016

Rafræn atkvæðagreiðsla um ótímabundið verkfall

Allir atkvæðisbærir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Snæfellinga fá sent bréf um framvindu samningaviðræðnanna við SFS auk leyniorðs sem nota má við atkvæðagreiðsluna.

Þegar bréfið hefur borist er hægt að smella hér til að kjósa

Hægt er að nálgast leiðbeiningar með því að smella hér.

2. maí 2016

1 maí ávarp Valmundar Valmundssonar sem var flutt í Grundarfirði og Ólafsvík

 Kæru félagar og gestir til hamingju með alþjóðadag verkalýðsins 1. maí 2016.
Kærar þakkir fyrir að bjóða mér til ykkar á ykkar fallega Snæfellsnes.
Mig langar til að byrja á að segja ykkur aðeins frá sjálfum mér og hvernig það er að vera forystumaður í stéttarsambandi eins og SSÍ.
Ég er fæddur 1961 og uppalinn á Siglufirði. Flutti þaðan með fjölskylduna til Vestmannaeyja á vordögum 1989. Byrjaði mína sjómennsku á skuttogurunum á Siglufirði, lengst af á Sigluvík Si 2 með Budda Jó. Á Frigg Ve 41 með Magna Jó 1989-1991. Á Þórunni Sveins Ve með Sigurjóni Óskarssyni aflakóngi einn vetur, með Helga Ágústssyni á Frigg Ve og Sindra Ve í stuttan tíma og svo á Frá Ve 78, 1992-2010 með Óskari Þórarinssyni á Háeyri og Sindra syni hans. Við hjónin eigum tvö börn, tvö barnabörn og eitt á leiðinni.

29. mars 2016

Álit RSK liggur fyrir: Ólaunuð vinna er skattskyld

Í tengslum við átakið „Einn réttur – ekkert svindl!“ hefur ASÍ lagt áherslu á vekja athygli á undirboðum sem felast í ólaunaðri vinnu. Ítarlega rökstutt álit ASÍ (sjá í frétt á www.asi.is) og helstu sjónarmið í  hnotskurn (sjá í frétt á www.asi.is) hafa legið fyrir í nokkurn tíma og vakið mikla eftirtekt enda vandamálið vaxandi sérstaklega í ákveðnum þjónustugreinum. Afstaða ASÍ er einföld og skýr:

Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft  í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög.

Í tengslum við framangreint átak og greiningarvinnu því tengdu óskaði ASÍ eftir svokölluðu „ákvarðandi bréfi“ frá Ríkisskattstjóra þar sem beint var til hans spurningum er varða skattskyldu og ólaunaða vinnu og/eða vinnu þar sem laun eru eingöngu í formi hlunninda. Þann 11. mars sl. barst ASÍ svo skriflegt svar frá ríkisskattstjóra þar sem helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Einstaklingur sem innir af hendi vinnu í þágu fyrirtækis í efnahagslegri starfsemi gegn því að fá t.a.m. fæði og húsnæði, ber að telja slíkt fram til skatts sem tekjur. Fyrirtækinu er jafnframt skylt að gera grein fyrir þessum gjöldum og halda eftir og skila viðeigandi sköttum og gjöldum af peningaverðmati hlunnindanna líkt og gert er af hefðbundnum launum.
  • Fyrirtæki í efnahagslegri starfssemi sem þiggur vinnuframlag einstaklings án þess að greiða fyrir pening eða hlunnindi ber að telja slíkt fram sem skattskylda gjöf og miða skal við gangverð þeirrar vinnu sem um ræðir hverju sinni sem í öllu falli er ekki lægra en lágmarkskjör kjarasamninga.

Aðildarfélög ASÍ og samstarfsaðilar munu í vinnustaðaeftirliti sínu nú og á komandi misserum leggja sérstaka áherslu á að vekja athygli á framangreindu.

29. mars 2016

Unga fólkið og lífeyrissjóðirnir

Geta breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, þ.e. hækkun mótframlags atvinnurekenda úr 8 í 11,5%, stuðlað að því að ungt fólk lendi í fátæktargildru? Þessari fullyrðingu var slegið upp í fyrirsögn í Fréttablaðinu 19. mars sl. Var það stutt þeim rökum að skylduiðgjald til lífeyrissjóða væri e.t.v. of hátt á sama tíma og ungt fólk væri að koma þaki yfir höfuðið og ala upp börn.

Það má um margt taka undir áhyggjur af þröngri stöðu ungs fólks hér á landi. Birtist þetta m.a. í því að húsnæðismarkaðurinn er ungu fólki, sem ekki nýtur fjárhagslegs stuðnings frá foreldrum eða öðru venslafólki, nánast lokaður og öruggt húsnæði á ásættanlegu verði er vandfundið á leigumarkaði. Vinnudagurinn er langur og útgjöld barnafjölskyldna eru ærin. Þá hafa of fá störf orðið til í greinum sem laða til sín ungt og efnilegt fólk.

Í öllum þessum grundvallarþáttum hefur stefnumótun stjórnvalda hverju sinni afgerandi áhrif. Stjórnvöld geta með aðgerðum sínum mótað umgjörð húsnæðismarkaðarins þannig að allir hópar geti gengið að öruggu íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Stjórnvöld geta líka létt barnafólki róðurinn með því að nota jöfnunartæki skattkerfisins bæði til að létta skattbyrði af fjölskyldum á meðan heimilisreksturinn er hvað þyngstur og með því að niðurgreiða þjónustu við barnafólk. Áherslan í atvinnustefnu stjórnvalda ræður sömuleiðis miklu um það hverskonar störf verða til fyrir ungt fólk á vinnumarkaði. Á alla þessa þætti hefur efnahagsstefna og hagstjórn vitanlega veruleg áhrif og ræður miklu um það hvernig til tekst. Það má því margt gera til að treysta stöðu ungs fólks og tryggja ungum fjölskyldum tækifæri og góð uppeldiskilyrði fyrir börn sín.

 

Í upphafi skyldi endinn skoða

Að hverfa frá því að byggja upp lífeyriskerfi þar sem hver kynslóð safnar fyrir góðri afkomu sinni á efri árum verður tæpast talið skref í þá átt að treysta stöðu ungs fólks á vinnumarkaði og til húsnæðiskaupa. Lífeyriskerfi okkar mun sannanlega létta undir með ungu fólki hér á landi samanborið við jafnaldra þeirra í flestum vestrænum ríkjum þegar stóru eftirstríðsárgangarnir fara á eftirlaun á næstu árum. Þessar kynslóðir hér á landi eiga mun digrari lífeyrissjóði en jafnaldrar þeirra í mörgum öðrum löndum þar sem framfærsla sí stækkandi hóps eldri borgara mun leggjast þungt á fámennari kynslóðir yngra fólks á næstu árum.

En þótt hér hafi vissulega verið byggt upp gott lífeyriskerfi sem mun gagnast okkur vel til framtíðar er verkefninu ekki lokið. Enn hafa opinberir starfsmenn mun betri lífeyrisréttindi en launafólk á almennum vinnumarkaði auk þess sem krafa dagsins snýst ekki bara um að eldra fólk hafi í sig og á þegar starfsævinni líkur, heldur vill það hafa fjárráð til að njóta lífsins og geta áfram verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þess vegna var í kjarasamningum í upphafi árs samið um 3,5% hækkun á framlagi atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði til lífeyrissjóðanna á næstu tveimur árum.

Þótt vissulega megi segja að núverandi iðgjöld til lífeyrissjóða kunni að tryggja tekjuháum hópum með farsæla atvinnusögu fullnægjandi lífeyrir munu þau ekki tryggja stórum hópum almenns launafólks ásættanlega afkomu á efri árum. Fyrir því eru nokkrar ástæður, þ.m.t.

  • Yngri kynslóðir koma síðar inn á vinnumarkaðinn en áður sem þýðir að þær þurfa að leggja meira fyrir til að safna nægum lífeyrisréttindum yfir starfsævina.
  • Lífaldur fer stöðugt hækkandi og heilsa eldra fólks batnar. Það eykur kröfuna um góða afkomu eftir stafslok á vinnumarkaði.
  • Hækkandi lífaldur gerir líka auknar kröfur um sveigjanleika í lífeyriskerfinu bæði til að mæta þeim sem eru í störfum sem erfitt er að sinna fram eftir aldri og þeim sem t.d. vilja geta stundað hálft starf samhliða lífeyristöku. Hækkun á iðgjaldi til lífeyrissjóðanna nú er einnig ætlað að svara þessu kalli um aukinn sveigjanleika.
  • Þá má nefna m.t.t. þróunar vaxtastigs á mörkuðum á heimsvísu að óraunhæft er að ætla að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða til lengri tíma litið verði áfram jafn góð og hún hefur verið um langt árabil.

Að byggja upp lífeyriskerfi af ábyrgð og myndugleika er ekki gert til höfuðs ungu fólki. Það er ábyrgðahluti gagnvart yngstu kynslóðunum, börnunum okkar, að sú kynslóð sem nú er á vinnumarkaði safni raunverulega fyrir sínum eftirlaunum, að örðum kosti sendum við reikninginn af afkomu okkar á efri árum áfram til barnanna okkar. Höldum áfram að axla þá ábyrgð en notum tekjujafnandi aðgerðir í efnahags- velferðar- og skattamálum til að styðja við unga fólkið.   

Henný Hinz,
deildarstjóri hagdeildar ASÍ

18. mars 2016

Nýr kjarasamningur við Landssamband smábátaeigenda

Starfsgreinasambandið undirritaði í dag nýjan kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda vegna starfsfólks sem vinnur við uppstokkun eða beitningu í landi annarra en þeirra sem eru hlutaráðnir. Samningurinn gildir jafnframt fyrir starfsmenn sem starfa við netavinnu. Samið var um sams konar hækkanir og samið var um í almenna kjarasamningnum á milli ASÍ og SA, þ.e. til viðbótar við þá samninga sem þegar höfðu verið gerðir var samið um auka kauphækkanir og hærra framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð. Kauphækkanir verða afturvirkar frá 1. janúar 2016 og hækkar kauptryggingin þá um 8,7% í stað 8% eins og samið hafði verið um áður. Unnið er að útgáfu nýrra kauptaxta og nýs heildarsamnings sem birtur verður eins fljótt og auðið er. Samningurinn verður lagður fyrir stjórnir SGS og LS fyrir lok mánaðarins.

Nýjan kjarasamning má nálgast hér: Kjarasamningur SGS og LS 2016 – undirritaður. 
 

18. mars 2016

Gjörningur á 100 ára afmæli ASí

Á 100 ára afmæli Alþýðusambands Íslands (ASÍ) 12. mars 2016 framkvæmdu Lúðrasveit verkalýðsins, kvennakórarnir Hrynjandi og Katla auk meðlima í Karlakór Reykjavíkur magnaðan gjörning (Flash mob) og göngum Hörpunnar í Reykjavík. Alls tóku 160 manns þátt. Lagið sem þau fluttu var Maístjarnan eftir Jón Ásgeirsson við texta Halldórs Laxness.  Hér má sjá mynband af gjörningnum